Í prýðilegu ágripi af sögu Þrasta fyrstu 40 árin sem birtist í afmælissöngskrá Þrasta 1952, segir Ólafur A. Kristjánsson meðal annars:

Brautryðjandinn

Haustið 1908 sama árið og Hafnarfjarðarbær fékk kaupstaðarréttindi- fluttist til Hafnarfjarðar maður, sem það átti fyrir að liggja að taka virkan og skapandi þátt í vaxandi menningarlífi hins unga bæjar, ekki aðeins um nokkurt skeið, heldur um langan aldur.  Maður þessi var Friðrik Bjarnason, kennari og tónskáld.  Hann var þá á léttasta skeiði, tæpra 28 ára gamall.  Hann var þá þegar orðinn mikill áhugamaður um söng og tónlist, en hugur og hæfileikar í þá átt voru kynfylgja hans.  Er öllum landslýð kunnugt, hver afreksmaður hann hefur reynzt í þeim efnum, og mun þeir þó meta störf hans mest, er gerst þekkja til.

Friðrik stofnaði karlakór með 10-20 mönnum þegar eftir komu sína til Hafnarfjarðar.  Höfðu ýmsar tilraunir verið gerðar áður til þess að halda úti karlakór í Hafnarfirði, hin fyrsta um 1890. (Saga Hafnarfj. Bls. 360 og 640), en engir þeir kórar höfðu orðið langæir.  Svo var og um þennan kór.  Veturinn eftir stjórnaði Friðrik öðrum karlakór, sem félagar úr Ungmennafélaginu 17. Júní og Ungmennafélagi Flensborgarskólans mynduðu.  Næsta vetur, 1910 – 1911, stofnaði Friðrik enn kór, 26 manna, er Fram hét.  Ekki lifðu þessir kórar nema vetrarlangt.  Svipuðu máli gengdi um aðrar tilraunir, sem gerðar voru á þessu árum til þess að stofna söngflokka í Hafnarfirði.

Þrestir stofnaðir

Enn gerði Friðrik Bjarnason tilraun til kórsmyndunar fjórða veturinn.  Og af þeim kór, sem þá var myndaður, er ólíkt meiri saga en hinum.  Hinn 19. Febrúar 1912 var stofnfundur hins nýja kórs haldinn í barnaskólahúsinu (gamla) og honum gefið nafnið Þrestir, að tillögu Friðriks Bjarnasonar.  Stofnendur voru 10.  Var nú æft af kappi, og á skírdag (4. Apríl) 1912 hélt kórinn samsöng í Góðtemplarahúsinu í Hafnarfirði við góðar undirtektir.  Söngmennirnir voru ellefu.  Friðrik Bjarnason var að sjálfsögðu söngstjóri.  Tólf lög voru á söngskránni, sem var í þrem liðum og leit þannig út:

1.      Sveinar kátir …………  L. Spohr.
2.      Íslands lag ……………   F. Pacius.
3.      Grafardals fögrum ……H. Wetterling.
4.      Brosandi land ………… J. E. Nordblom.

1.      Vorið er komið ………   O. Lindblad.
2.      Við nemum ei staðar     B. Þorsteinsson.
3.      Delerium tremens …… Franz Otto.
4.      Hvar yndi ég bezt ……  Carl Zöllner.

1.      Nafnkunna landið …… B. Crusell.
2.      Æska hraust …………… P. Heise.
3.      Er sumarið svífur ……   J. U. Wehrli.
4.      Stormur lægist ………… Oskar Borg.

Einsöngvari í síðasta laginu var Helgi Valtýsson.

Annars var söngmönnum á þessum fyrsta samsöng Þrasta þannig skipað í raddir:  I. Tenór: Hafsteinn Jónsson (fræðslumálastjóra, Þórarinssonar) Helgi Valtýsson (kennari), Jóel Ingvarsson (skósmiður), Sigurður Sigurðsson (bifreiðastjóri).
II. Tenór:  Árni Þorsteinsson (bíóstjóri), Gísli Gunnarsson (kaupmaður).
I.  Bassi:   Einar  Þórðarson (úrsmiður), Guðmundur Eyjólfsson (símstjóri).
II. Bassi:   Elías Halldórsson (verkstjóri), Guðjón Jónsson (kaupmaður), Salómon Heiðar (verzlunarmaður).

Fyrstu árin

Friðrik Bjarnason var söngstjóri Þrasta í 12 ár samfleytt (til 1924).  Söng kórinn opinberlega flest eða öll árin, bæði í Hafnarfirði og víðar, og gat sér góðan orðstír.  Margir ágætir söngmenn voru í kórnum, þar á meðal menn sem orðið hafa landskunnir, svo sem Sveinn Þorkelsson og Sigurður Birkis, en þeir voru báðir einsöngvarar í Þröstum.  Á þessum árum söng kórinn mörg falleg lög með fögrum textum, innlend og útlend.  Oft tók hann fyrir erfið viðfangsefni, þótt fámennur væri.  Þótti hann vaxa við hverja raun, enda var söngstjórinn vandlátur og hinn mesti kunnáttumaður.

Hann fékk skáld til að þýða eða yrkja texta við útlend lög, en honum þóttu vænleg til söngs.  Meðal þýðendanna voru jafn snjallir menn og Helgi Valtýsson, Guðmundur Guðmundsson (skólaskáld) og Magnús Stefánsson.  Enn naut kórinn þess, að söngstjórinn var snjallt tónskáld, því að hann samdi stundum lög handa honum að syngja.  Hafa sum þeirra borið hróður höfundar síns víða, svo sem Hóladans.”

Annar áratugurinn

Þegar Friðrik Bjarnason lét af söngstjórn Þrasta 1924, tók ungur og ötull maður við stjórn kórsins, Sigurður Þórðarson, og stjórnaði honum í tvö ár.  Starfsemin var með líku sniði og áður.  Sigurður fór með kórinn til Reykjavíkur 1925 og söng hann þar við ágætar viðtökur.  Veturinn 1926 stofnaði Sigurður Karlakór Reykjavíkur.  Héldu kórarnir sameiginlegan samsöng í Reykjavík og Hafnarfirði undir stjórn hans.  Þótti áheyrendum vel takast og hlutur Þrasta þó ekki vera minni.  Hefur Sigurður stjórnað Karlakór Reykjavíkur síðan, svo sem frægt er orðið

Veturinn eftir að Sigurður Þórðarson lét af stjórn Þrasta, voru þeir söngstjóralausir að mestu, en Bjarni Snæbjörnsson læknir, sem þá hafði verið formaður kórsins í nokkur ár og sýnt mikla elju og áhuga í því starfi, sá um, að söngæfingar væru ekki látnar niður falla.  Næsta vetur stjórnaði ungur og áhugasamur maður Þröstum.  Það var Páll Halldórsson, sem síðar var söngstjóri Karlakórs iðnaðarmanna í Reykjavík og organleikari við Hallgrímskirkju.  Söng kórinn opinberlega þann vetur eins og áður.

Eftir að Páll Halldórsson lét af söngstjórn Þrasta 1928, var kórinn söngstjóralaus í nokkur ár.  Hélt hann þá ekki opinberan samsöng.  En starfsemi hans lá þó ekki með öllu niðri.  Undir forystu formannsins, Bjarna Snæbjörnssonar, æfðu nú Þrestir söng og sungu á ýmsum skemmtisamkomum, bæði úti og inni, meðal annars á Jónsmessuhátíð Magna á Óseyrartúni.  Einu sinni æfðu þeir félagar allmöng lög eftir Bellman og höfðu í huga að syngja þau opinberlega, þótt ekki yrði af því.  En sum þeirra laga sungu þeir á skemmtunum síðar.  Voru þeir aldrei færri en átta, en oft fleiri.”

Eftir þetta vænkaðist hagur Þrasta, en þá gengu til liðs við kórinn félagar úr karlakórnum Ernir, en hann var stofnaður innan Verkamannafél. Hlífar.  Tók þá við söngstjórn Jón Ísleifsson sem áður hafði stjórnað Örnum.  Hefur kórinn síðan starfað á hverju ári þó mismikið eftir aðstæðum og yfirleitt sungið opinberlega bæði í Hafnarfirði og víðar.

“Þrestir sungu með öðrum kórum á Þingvöllum við lýðveldisstofnunina. Síðan hefur kórinn jafnan sungið í Hafnarfirði 17. júní.  Hefur það löngum verið svo síðan Þrestir voru stofnaðir, að þeir hafa sungið við mörg hátíðleg tækifæri í Hafnarfirði, ýmist kórinn allur eða flokkar úr honum.”

Nú hin síðari ár hefur aðventusöngur svo og söngur jólalaga í verslunum og víðar verið snar þáttur í starfsemi kórsins.

“Mörgum hafa Þrestir skemmt á 40 ára ævi, mörg ágæt lög hafa þeir kynnt almenningi, og hjá mörgum manni vakið og aukið áhuga fyrir fögrum söng.  Söngmönnum hafa þeir veitt þroskandi tómstundastarf og hollt hugðarefni.  Laun kórsins skyldu verða langt líf og gott.”

(Ó.Þ.K. 1952)

Söngstjórar

Í gegn um tíðina hafa Þrestir haft marga söngstjóra og hafa ýmsir þeirra orðið þjóðkunnir:

Friðrik Bjarnason 1912 – 1924
Sigurður Þórðarson 1924 – 1926
Formaður Bjarni Snæbjörnsson sá um æfingar 1926 – 1927; 1928 – 1935
Páll Halldórsson 1927 – 1928; 1949 – 1950
Jón  Ísleifsson 1935 – 1937; 1945 – 1949; 1953 – 1955; 1961 – 1963
Sr. Garðar Þorsteinsson 1937 – 1945
Páll Kr. Pálsson 1950 – 1953
Páll P. Pálsson 1955 – 1956  —   1956 – 1959
Jón Ásgeirsson 1959 – 1961
Helmut Neumann 1963 – 1964
Frank Herlufsen 1964 – 1965
Herbert H. Ágústsson 1965 – 1971; 1980 – 1983
Eiríkur Árni Sigtryggsson 1971 – 1977; 1991 – 1995
Páll Gröndal 1977 – 1978; 1979 – 1980
Ragnar Jónsson 1978 – 1979
John Speight 1983 – 1985
Kjartan Sigurjónsson 1985 – 1990
Ronald W. Turner 1990 – 1991
Sólveig S. Einarsdóttir 1995 – 1997
Jón Kristinn Cortez 1997 – 2016
Jón Karl Einarsson 2016 –

Formenn

Þá hafa einnig ýmsir mætir menn stýrt félaginu í gegn um tíðina:

Salómon Heiðar 1912 – 1917 1918 – 1924
Bjarni Snæbjörnsson 1925 – 1935 ??????
Guðmundur Gissurarson 1935 – 1937; 1942 – 1948; 1949 – ??
Stefán Jónsson 1937 – 1942
Böðvar B. Sigurðsson 1948 –  1949 ????? – 1967
Þórður Stefánsson 1968 – 1969
Sigurður Kristinsson 1969 – 1970
Sigurður H. Stefánsson 1971 – 1975; 1979 – 1981
Halldór Einarsson 1976 – 1978
Árni Ómar Bentsson 1982 – 1987
Helgi S. Þórðarson 1987 – 1992
Sigurður M. Stefánsson 1992 – 1997
Sigurður Pétur Guðnason 1997 – 2000
Halldór Halldórsson 2000 – 2003
Páll Ólafsson 2003 –

Húsnæði

Haustið 1983 fékk kórinn inni í húsnæði verknámskennslu Iðnskóla Hafnarfjarðar gegn því að innrétta hluta hússins.  Voru þeir þar í sex ár og gáfu því nafnið “Söngheimar”.  Var þetta mikil lyftistöng í starfi kórsins, að þurfa ekki að leita að æfingarhúsnæði í byrjun hvers vetrar og hugsanlega deila með öðrum, sem þýddi auknar tilfærslur og fyrirhöfn við undirbúning æfinga.

Frá 1973 var starfandi félagsheimilisnefnd, sem leitaði að hentugu húsnæði undir starfsemi kórsins.  Þann 4. nóvember 1988 var undirritaður kaupsamningur um 200 ferm. efri hæð að Flatahrauni 21.  Var það afhent fokhelt ári síðar og unnu félagar við að innrétta húsnæðið það haust í stað söngæfinga, en þær hófust síðan í eigin húsnæði í ársbyrjun 1990.  Með tilkomu þess hefur loksins verið skotið stoðum undir starfsemi kórsins.  Þar getum við geymt muni okkar og minjar, haldið okkar skemmtanir auk æfinga.  Fengið söngkennara til raddþjálfunar og byggt upp starf kórsins á allan mögulegan máta.

Söng – Ferðalög

Hér áður fyrr taldist það meiri háttar ferðalag að fara og syngja í Reykjavík, eða suður með sjó.  Þá voru líka möguleikar til ferðalaga aðrir og minni, vegir víða ófullkomnir og faratæki af skornum skammti.  Í seinni tíð telst það sjálfsagt að kórar fari í söngferðir eða ferðalög og eru Þrestir þar engin undantekning.  Auk styttri ferða hér innanlands svo sem til Hvolsvallar, Blönduóss, Skagafjarðar eða Akureyrar þá hafa ferðir til útlanda verið nokkrar svo sem:

1973 – Færeyjar
1974 – Skotland
1975 – Skotland, boð um að syngja á Víkingahátíð í Largs, skammt frá Glasgow.
1976 – Lúxemborg, Þýskaland og Ítalía.
1977 – Noregur og Danmörk.Kóramót í Noregi og heimsókn til  vinakóra í Þrándheimi og Árósum.

1978 – Cuxhaven.Vinabær Hafnarfjarðar í Þýskalandi. Þrestir ásamt Kirkjukór Víðistaðakirkju og kór Öldutúnsskóla fóru í heimsókn og héldu sameiginlega nokkra tónleika.  Alls um 150 manns í ferðinni og sennilega stærsta vinabæjarheimsókn í sögunni.

1979 – Holland og Þýzkaland. Heimsókn til “Whale City Sound” barbershop kórs í Zan Dam í Hollandi og þátttaka í kóramóti þar.

Þá er fyrirhuguð ferð síðsumars í tilefni af 90 ára afmæli kórsins og eins og venjulega þá er sett upp söngskemmtun á áfangastöðum.  Auk þess er í tilefni afmælisins gefinn út geisladiskur með söng kórsins og þá munum við taka á móti skandinaviskum kórum í júní.

Kór eldri Þrasta

Haustið 1991, var stofnaður kór eldri Þrasta og var fyrsta stjórn skipuð:

Ólafur A. Guðmundsson formaður, Bergsveinn Sigurðsson og Jón Valur Tryggvason meðstjórnendur.

Voru stofnfélagar um 20, margir úr röðum aðal kórsins, sem vildu fara að minnka við sig, og eins nokkrir sem áður höfðu dregið saman seglin en komu nú aftur.  Hafa þeir oft sungið með okkur á tillidögum, sem og við önnur tækifæri og er yndislegt til þess að vita að þegar við eldumst eða höfum skertan tíma, að geta fundið félagsskap og útrás fyrir söngþörfina hjá eldri félögum okkar.  Þess er vert að geta að kór eldri Þrasta hefur sinn eiginn stjórnanda og söngskrá, enda koma þeir fram við ýmiss tækifæri einir sér eða með öðrum kórum en Þröstum.  Alveg magnaðir drengir.

Kvenfélag

Ekki má gleyma konunum okkar, en þann 5. október 1973 var stofnað Kvenfélag karlakórsins Þrasta.  Félagar eru sjálfkrafa eiginkonur okkar Þrastarfélaga og hafa þar verið margir mætir formenn.  Við félagarnir erum afskaplega þakklátir þessum félagsskap, því þær styðja okkur með ráðum og dáð.  Má t.d. nefna gjafir ýmsar og ekki síður árlegan jólafund þar sem þær bjóða okkur í hangikjöt og léttmeti, eftir erfiðan dag við að kveikja á jólatrénu, heimsækja sjúkrastofnanir og syngja í verslunum.  Þá hafa þær oft reynst ómetanlegar þegar við tökum á móti gestum t.d. kórum, þá leggja þær oft til kaffi og meðlæti svo út tekur flottustu fermingarveislum.

Lokaorð

Karlakórinn Þrestir hefur sæmt félaga sína viðurkenningum fyrir góða ástundun við sönginn, sem barmmerkjum.  Auk þess höfum við sæmt félaga heiðursfélaga nafnbót vegna frammistöðu ýmist við stjórnun, langa og góða ástundun eða þá aðra þjónustu í þágu kórsins sem ella yrði seint þökkuð.  Til langs tíma áttum við þrjá heiðursfélaga.  Þá:  Pál Þorleifsson, Stefán Jónsson og Þórð Björgvin Þórðarson.  Bæði Stefán og Þórður Björgvin féllu frá á síðasta ári og er þeirra sárt saknað, auk þess sem við vottum fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Það bar hins vegar svo við á 90. afmælisári Þrasta að ekkja Stefáns, Hulda Þórðardóttir færði kórnun fyrir hönd fjölskyldu sinnar, forláta flygil að gjöf, í tilefni afmælisins og til minningar um Stefán.  Verður þetta án efa ein lyftistöngin enn í starfi kórsins, og sýnir svo ekki verður um villst hlýhug þann og stuðning sem þau hjón ævinlega sýndu kórnum í gegn um tíðina.

Sigurður M. Stefánsson